Ég er allavega ekki með námskvíða.
- kolbrungardarsdott
- Oct 20
- 3 min read
Ókei, miðannarprófin eru búin og ég er komin meira en helminginn inn í fyrstu önnina af háskólanámi. Það er meira að segja u.þ.b. mánuður í fyrsta lokapróf, sem er algjört brjálæði. Ég gerði mér bara grein fyrir því í morgun þegar ég var að fara yfir kennsluáætlunina og mér fannst það skrítið því fyrir svona tveimur vikum fannst mér önnin vera að líða svo hægt. Ég hef ekki mikið að segja, nema að ég hef tekið eftir því hvernig hugarfarið mitt gagnvart skólanum vera svo gjörbreytt frá því í menntaskóla. Ég var svo stressuð, alltaf. Ég man eftir að vera svo ótrúlega stressuð á fyrstu önninni í menntaskóla þegar ég var enn á Íslandi. Bara í ósköp venjulegum menntaskóla, það var enginn keppnisandi sem ég fann fyrir í skólanum. Ég held samt að ég hefði ekki verið svona kvíðin yfir náminu ef stoltið mitt hefði reitt sig á eitthvað annað en námsárangri og hversu margar bækur ég las á ári. Ég man eftir að eiga í erfiðleikum með eitthvað í stærðfræði á þessari fyrstu önn og að hugsa að ég myndi bara aldrei skilja þetta, ég myndi standa mig ömurlega í þessum áfanga og eiga erfitt með menntaskólanám, allavega stærðfræði. Ég fékk 10 í lokaeinkunn.
Svo í Noregi var allt breytt, ég var í alvörunni léleg í stærðfræði þar. Hún var ekki þannig að ef ég bara settist niður og lagði á mig að læra fyrir próf þá myndi ég standa mig prýðilega á því. Ég þurfti að sætta mig við að ég væri bara léleg í stærðfræði. Ég sá það virkilega fyrir mér að falla á lokaprófinu, að vera neituð IB prófi, að þurfa að fara aftur í menntaskóla á Íslandi eða eitthvað, ég veit það ekki. Ég lærði nú bara samt, og á endanum fékk ég bara mjög ásættanlega einkunn á lokaprófinu eftir þessi 2 ár. Hún var engin tía, en ég var svo hissa á þessari einkunn að ég var bara nokkuð stolt af mér.
Mér finnst margir í kringum mig stressa sig mjög mikið á einhverju miðannarprófi sem gildir kannski 10% af einum áfanga, og það lét mig hugsa um hvort ég ætti að vera stressuð yfir því líka. Á ég að fríka út ef ég skil ekki einhvern kafla í stærðfræði, eða hvernig á að reikna þessi skrítnu heildi með skurðpunkt í miðjunni eins og ég var að reyna í dag? Ég tek bara stærðfræðina sem dæmi, en eftir að stressa mig yfir engu í MH og enda á ýta undir fullkomnunaráráttu á þeim tíma, og svo að ná einhvernveginn að standa mig mjög vel yfirhöfuð í IB þrátt fyrir að finnast ég vera stanslaust að falla eftir úr í námi (nema sálfræði, mig minnir að ég hafi alltaf verið með hana á hreinu af einhverri ástæðu. Kannski út af the goat, Mamta), þá finnst mér ég hafa lært að þótt að mér sé ekki að ganga fullkomlega, eða jafnvel bara nokkuð illa…þá verður allt allt í lagi. Það hefur allavega aldrei verið ekki í lagi á endanum svo ég held því fram.
Yfir í annað. Ég á vini núna! Það er svo miklu skemmtilegra að fara í skólann vitandi að ég hef allavega einhvern til þess að sitja með og spjalla við um eitthvað skemmtilegt. Hópurinn sem ég hef kynnst er svolítið fyndinn því ég held að fæst okkar myndu vera vinir ef við værum fleiri, en það eru bara ekki það margir í líffræði, og ennþá færri sem mæta í tíma. Mér finnst mjög áhugavert að taka eftir öllum mismunandi karakterunum, og þegar nýir bætast í hópinn. Ég hljóma eins og einhver gömul kona en ég vona að við verðum öll nánari með önnunum, sérstaklega þar sem hópurinn á örugglega eftir að minnka. Ég hef alltaf verið svo feimin að ég höndla bara að eiga nokkra vini og eftir að ég hef eignast þá er mjög erfitt að reyna að kynnast nýju fólki. Það er mitt helsta vesen. Ég vona að ég hætti ekki við að fara á næsta vísó á föstudaginn. Það hljómar spennandi og skemmtilegt, en líka mjög kvíðavaldandi. Ég fékk vinkonu mína til þess að koma með mér og ég mun reyna að halda mér bara við hana. ÉG VIL VERÐA CHILL MANNESKJA Á EINHVERJUM TÍMAPUNKTI Í LÍFINU MÍNU.


Comments