top of page

Risaeðlur og ég

  • kolbrungardarsdott
  • Oct 1
  • 2 min read

Ég kláraði bókina Words in Deep Blue í gær í annað skiptið. Ég fékk hana í afmælisgjöf fyrir tveimur árum frá vinkonu minni sem fann hana í second hand bókabúð, sem er reyndar bara mjög viðeigandi því bókin gerist að stóru magni í og fjallar svolítið um einmitt þannig búð. Hún lýsir vináttu og ástarsambandi unglinga eftir að stelpan flytur aftur í bæinn þar sem hún og hann bjuggu þegar þau voru yngri og leiðir þeirra liggja aftur saman. Bókin fjallar samt aðallega um togstreituna á milli raun- og hugvísinda, og hvernig þessir hlutir eru kannski skyldari en við gerum okkur grein fyrir. Hugmyndina um eilífðarhyggju er minnst á í gegnum bókina, sérstaklega sem tilraun til hughreystingar þegar kemur að missi ástvina. 


Ég gat ekki lyft hausnum úr bókinni þar til ég kláraði hana í gær, sem var um klukkan hálf tvö um nótt. Ég endaði á að sofa yfir mig og skrópaði í stærðfræðifyrirlesti í morgun vegna þess. Þótt ég hafði lesið hana áður þá ég sætti mig ekki við endann á bókinni. Persónurnar virðast skipta um skoðun á eilífðarhyggjukenningunni undir lokin. Þegar þær tala um hana fyrst lýsa þau hvernig látinn bróðir hennar sé ennþá til og er vissulega á róli í heiminum, fyrst að hann sé til í fortíðinni og allar tíðir gerast á sama tíma. Ef hún gæti bara risið nógu hátt og horft niður á alheiminn, þá gæti hún séð hann þegar hann var (er?) á lífi, alveg eins og hún gæti séð fæðingu sína, sig sjálfa í nútíðinni, og alla atburði lífs síns eftir hana, fyrst að rúm og tími eru samofin fyrirbæri. Fjórða víddin. Ef miklihvellur bjó til allt efni heimsins, þá bjó hann til allan tíma heimsins líka, er það ekki? Ég ímynda mér að horfa niður á alheiminn, á allar tíðir samtímis, og ég hugsa að maður gæti hvort sem er ekki séð neitt nema hvítt. 


Á endanum eru þau viss um að fortíðin hafi gerst, og nútíminn er að gerast, en framtíðin er óákveðin. Það meikar bara engan veginn sens. Bara alls ekki. Ég get ekki séð það fyrir mér að fortíðin sé til, óbreytanleg og óaðgengileg, en framtíðin sé það ekki. Ef allur tími er samofinn rúmi, þá er hann til, og við ættum að geta séð hann ef við horfum niður á alheiminn, þ.m.t. framtíðina. Við tökum vissulega ákvarðanir, framtíðin kemur ekki bara einhvernveginn. En ef framtíðin er að gerast núna, ef ég hef tekið ákvarðanir morgundagsins nú þegar, þá mun ég alltaf taka þessar ákveðnu ákvarðanir á morgun. Skilurðu hvað ég meina? Ef fortíðin er ekki til lengur, hvert fór hún? Og ef framtíðin er ekki til heldur, hvaðan kemur hún? 


Kannski hef ég þetta kolrangt eða hef hugsað mig svo út í gönur að einhver heimspekingur eða eðlisfræðingur myndi hrista hausinn og segja: “Hættu að hugsa um þetta, byrjum á byrjuninni.” 


Ég hlustaði á útvarpsþátt um risaeðlur um daginn, og í staðinn fyrir að hugsa um hvað það þýðir að ég og allt líf á jörðu sé búið að deyja, þá ætla ég að hugsa um það að það gætu verið að risaeðlur labbandi um hana núna.

Recent Posts

See All
A pretty long stay in hell

Ég las loksins bókina A Short Stay in Hell fyrir tveim dögum eða svo. Einhver mælti með henni á netinu fyrir kannski tveimur árum og mig...

 
 
 
Að vera hestur í náttfötum

Ég fór á vísó í dag eftir verklegan efnafræðitíma þar sem ég botnaði ekki mikið í hvað ég var í rauninni að gera en að bæta efnum ofan í...

 
 
 

Comments


Share your thoughts...

Message Received!

© 2023 by Thoughts Express. All rights reserved.

bottom of page