A pretty long stay in hell
- kolbrungardarsdott
- 53 minutes ago
- 4 min read
Ég las loksins bókina A Short Stay in Hell fyrir tveim dögum eða svo. Einhver mælti með henni á netinu fyrir kannski tveimur árum og mig langaði alltaf að lesa hana en hún er bara nýkomin á bókasafn á landinu og ég náði í hana eftir að hafa geymt hana á TBR listanum í marga marga mánuði núna. Hún var ennþá styttri en ég bjóst við, og mjög auðlesin þótt ég þurfti að gúggla einhver orð á fyrstu blaðsíðunni.
Þetta var önnur bók sem er svo erfitt að líta upp úr. Hún fjallar um mormóna sem deyr og er ekki sendur til himnaríkis heldur helvítis, af einhverjum djöful sem hann hefur aldrei heyrt um, úr trúarbragði sem hann kannast ekki við. Helvíti í hans tilviki er gríðarstórt bókasafn, byggt á bókasafni Babel (sem er saga eftir einhvern Borges sem var líka minnst á í Words in Deep Blue!), þar sem eru allar bækur sem gætu mögulega verið skrifaðar. Til þess að komast úr helvíti þarf hann að finna bókina sem lýsir lífi hans á jörðu nákvæmlega. Í helvíti eldist hann ekki og ef hann deyr á einhvern hátt vaknar hann aftur daginn eftir. Það er virkilega ekkert að gera í stöðunni nema að taka þessar bækur sem virðast vera óendanlega margar af hillunum, eina í einu.
Eftir að ég kláraði bókina horfði ég á vídjó af einhverjum manni að tala um hana og hann minnstist á að þemu bókarinnar eru augljós allan tímann og ég hugsaði að það væri rétt. Mér finnst eins og bókin reynir ekki að leyna einhverju á sér, heldur segir hún manni bara hvað hún er í raun að fjalla um. Hún setur fram spurningar en svarar þeim ekki endilega. Það minnti mig mjög á I Who Have Never Known Men, maður veit allan tímann hvernig bókin mun spilast út, hún sagði manni það á fyrstu blaðsíðunni, en samt er maður í leit af svörum í lokin.
Aðalpersónan endar á því að komast niður á botn bókasafnsins þegar hann uppgötvar að það er ekki endalaust eftir að hafa verið á ráfi um það í milljónir ára. Það eina sem heldur honum gangandi er vonin um að komast út úr helvíti og vissan um það að bókin sem hann leitar að er einhversstaðar á bókasafninu, og ef hann fer í gegnum þær, eina af annarri, mun hann einhverntíma finna hana. Það mun taka milljarða ára en það er mögulegt. Mér finnst það tengjast þemum bókarinnar um mannlegan anda og þrautseigju hennar. Mér finnst bókin svara því nokkurn veginn sem bara þýðingu – við þurfum þýðingu og tilgang til þess að við upplifum einhverja ástríðu eða lífsgleði. Hvað gerist þegar ekkert í kringum þig eða við þínar aðstæður ber snefil af þýðingu? Þessi hugmynd um þrautseigju og vonina sem drífur fólk áfram tengist líka I Who Have Never Known Men. Þegar konurnar komast loksins út úr “helvíti” sínu sem var þeim óskiljanlegt finna þær heim sem þær botna enn minna í. Þær halda bara áfram að fara frá kjallara í kjallara, í von um að finna annað fólk eða eitthvað sem myndi benda til einhvers tilgangs eða útskýringu á þessum heimi sem þær finna sig í, alveg eins og mormóninn ákveður að halda áfram að leitast eftir bókinni sinni í staðinn fyrir að sætta sig við að vera á bókasafninu að eilífu. Hann hefur von um að komast út.
Þegar þau lenda í helvíti í fyrsta skiptið er þeim ljóst að allar skuldbindingar úr lífi sínu á jörðu hafa enga þýðingu í helvíti: hjónabönd, skuldir, siðferðisleg ábyrgð, og annað. Allt hitt fólkið sem lenti þarna á sama tíma og hann er eins klætt, á svipuðum aldri, og allar bækurnar á hillunum eru handahófskenndar samansetningar bókstafa. Sama þótt og hann myndi finna bókmenntir sem þættu stórmerkilegar á jörðu þá væri það bara sama bullið því það er engin þýðing á bakvið orðin. Samt leitast fólkið eftir bókum sem hafa setningar sem meika sens, og greina þær niður í botn í leit af merkingu. Fólki er annt um hvert annað og þau stofna það sem þau kalla “háskóla”, og aðalpersónan prýðir sig á að fá að vera nefndur prófessor þar. Hann verður ástfanginn og eyðir hundruðum ára með annarri manneskju. Fólkið leitar að og býr til sína eigin þýðingu, jafnvel í þessum aðstæðum þar sem ekkert, í raun, býr yfir henni. Er það sem knýr undir lífsgleði og ástríðu bara það að allt muni enda einn daginn? Kannski.
Annað í bókinnni sem minnti mig á Words in Deep Blue var það að fólkið sem var í helvítinu dó ekki á sama tíma, heldur voru jafnvel nokkrir áratugir á milli dauða persónanna. Það fékk mig til að hugsa um eilífðarhyggjuna aftur, því ef fólkið var allt á sama stað eftir að hafa dáið á mismunandi tímapunktum, þá opnar það fyrir hugmyndina um fræðileg tímaferðalög. Hunsum bara það að líkami fólksins væri samt ekki í helvíti eða á bókasafninu heldur eins konar sálir þeirra mögulega. Þau finna samt fyrir sársauka og líffræðilega séð “deyja” en vakna bara aftur til lífsins, svo ég skil ekki alveg smáatriðin þegar að þessu er komið. En hvar er bóksafnið þá staðsett í vefi tíma og rúms? Ég held að eilífðarhyggjukenningin geri ekki pláss fyrir fyrirbæri sem eru fyrir utan þennan vef, og þá flækjast málin verulega og dregur mig aftur í menntaskólaheimspekitíma. Hvar eru hugsanir, ímyndanir, og þessi mögulega sál? Ég ætla ekki að dvelja á því lengur, en ég hef ákveðið að sama hverjar kenningar tíma eru, og sama þótt það sé möguleiki á tímaferðalögum eða á því að jörðin sé ekki einu sinni lengur til, þá er það eina sem skiptir máli hvernig ég upplifi tímann líða. Ekki nenni ég að vera sú sem finnur upp á tímavél. Ef ég gerði það myndi ég örugglega bara fara aftur nokkur ár og passa að það væri ekki keyrt yfir köttinn minn þann dag.
Comments