Bækur 2025
- kolbrungardarsdott
- 14 hours ago
- 8 min read
Annað ár, fleiri bækur. Ég kláraði 22 bækur árið 2025, sem eru 6 fleiri en 2024. Ég einbeitti mér að lesa bækur sem ég vildi lesa og að klára þær þótt þær voru leiðinlegar eða pirrandi, því það er miklu skemmtilegra að segja: ,,Ég las þessa bók, hún var ömurleg því að..." heldur en: ,,Ó, já, ég byrjaði að lesa hana en kláraði hana ekki því mér fannst hún ekki skemmtileg." Ég er samt ekki hrædd við að klára ekki bækur. Ég er líka eiginlega hætt að kaupa bækur. Ég keypti svo margar bækur þegar ég var unglingur og sá svo eftir að hafa keypt sumar þeirra að ég tek allt bara á bókasafninu núna. ÉG ELSKA BÓKASÖFN. Mig langar að skrifa grein um hversu mikið ég elska bókasöfn. Það er samt gaman að geta lánað eða gefið fólki bækur úr mínu eigin safni. Bara í dag var ég að gefa frænda mínum bók sem hann vantar fyrir skólann sem ég átti bara. Það er svo gaman að geta verið sú manneskja.
Allavega, hérna eru allar bækurnar sem ég las á liðna árinu. Ég varð leið á að lýsa bókunum á einhverjum tímapunkti svo það er mjög misjafnt hversu mikið ég skrifaði um þær.
Dungeons and Drama - Kristy Boyce
Byrjaði árið á þessari unglingabók sem átti bara að vera skemmtileg, og mig minnir að hún hafi bara verið það! Ég held ég hefði fílað þessa bók svo mikið þegar ég var 15 ára en því miður er ég ekki 15 ára lengur.
Jane, Unlimited - Kristin Cashore
Ég man eftir að lesa þessa bók mikið í vinnunni og þegar ég var komin aðeins lengra en helminginn var ég til í að vera búin með hana. Hún fjallar semsagt um stelpu og atburði sem hún gengur í gegnum (eins og flestar bækur gera nú) eftir að hafa tekið ákveðna ákvörðun í byrjun bókarinnar. Hver hluti bókarinnar er sagan af mismunandi afleiðingum ákvarðaninnar. Fyrst fannst mér þetta áhugavert en það þreyttist eftir hluta 2-3. Mig minnir að mér fannst pirrandi að sagan keyrðist ekki áfram því hún er í rauninni 6 (eða eitthvað) mismunandi sögur sem hafa allar að gera með sömu atburðina í grunni, svo maður er alltaf dreginn aftur að byrjuninni. Ójá og ég skildi ekki rassgat í tilgangi þessarar bókar eða bara hvað var í gangi svona almennt.
Her Royal Highness - Rachel Hawkins
Ég held að þetta hafi verið fyrsta wlw bókin sem ég las í grunnskóla (jafnvel menntaskóla? Man það ekki alveg) og ENGIN bók lætur mig langa að hætta öllu og hverfa til Skotlands upp í fjöll…nema kannski fyrri bókin, Prince Charming…
The Humans - Matt Haig
Fáum sinnum hef ég lesið bók og verið eins pirruð, og aldrei hef ég lesið bók og þurft að skrifa hatursumsögn um hana, eins og þessi bók lét mig gera.
Six of Crows - Leigh Bardugo
THE PEAK OF YOUNG ADULT FICTION!!!!!!
Ef Leigh Bardugo á enga aðdáendur er ég dauð.
Ég kynntist the Grishaverse í gegnum Six of Crows jólin í 10. bekk og ég breyttist á einhverju grundvallarstigi. Fyrst að þá hafði ég ekki lesið Shadow and Bone seríuna áður þá skildi ég ekkert hvað var í gangi allan tímann en ég skemmti mér svo sannarlega. Ég held að þetta var þriðja skiptið sem ég las þessa bók og það verður ekki mitt síðasta. Mér fannst samt fyndið hvernig mér fannst Kaz svo miklu meira…cringy og edgy heldur en hvernig ég mundi eftir honum. Ég þurfti alveg að ákveða að leiða það hjá mér til þess að geta einbeitt mér að bókinni. Ég trúi því samt að stundum þurfi maður að geta haft gaman af smá cringe til þess að njóta einhvers góðs, eins og Six og Crows.
Crooked Kingdom - Leigh Bardugo
Ég elska the Six of Crows duology svo mikið og ég trúi í alvöru að það sé ekki hægt að skrifa betri fantasíu. Af hverju er hún samt svo góð? Ég get ekki lýst því vel, en Leigh Bardugo skrifar bara svo góðar persónur sem maður á auðvelt með að finna til fyrir, og söguþráð sem kemur manni sífellt á óvart; maður gæti ekki talið skiptin sem eitthvað fáranlegt gerist sem maður sá svo alls ekki fyrir sér. Og the BANTER.
Conversations with Friends - Sally Rooney
Mér var gefin þessi bók fyrir nokkrum árum núna en ég hafði aldrei áhuga á að lesa hana fyrr en í ár. Ég veit ekki alveg af hverju mig langaði skyndilega að lesa hana. Ég tók hana með mér í frí í Króatíu og hún var mjög hentug sumarfrísbók, ég mæli með að lesa hana þannig. Ég man samt ekkert sérstaklega eftir henni og mig langar ekkert frekar að lesa fleiri bækur eftir Sally Rooney núna.
Shadow and Bone - Leigh Bardugo
Sko, eftir að ég kláraði Crooked Kingdom langaði mig að lesa King of Scars en áður en ég gat gert það þurfti ég að lesa Shadow and Bone seríuna fyrst til þess að minna mig á allt sem gerðist í henni…
The Murder Hypothesis - Sarah Wishart
Hvað í fjandanum var þetta? Mér fannst þetta asnalegasta bók sem ég hef lesið í langan tíma. Aftur, þetta er unglingabók sem mér hefði kannski fundist skemmtileg fyrir 5 árum. Hún er um stelpu sem flytur með pabba sínum frá stórborg í pínulítinn sveitabæ þar sem fólk hefur verið að detta grunsamlega niður dautt eitt af öðru og hún bara verður að komast til botns í því. Já, og hún ELSKAR raunvísindi og hún ætlar að leysa þessi morð með vísindalegri aðferð og tilraunum? Aðalpersónan gæti ekki verið meira pirrandi og (spoiler, en það skiptir ekki máli því enginn ætti að eyða tíma sínum í þessa bók) það að besta vinkonan hafði verið dáin allan tímann og stelpan var bara búin að vera að ímynda sér hana allan tímann??? Það hljómar eins og einhver teiknimyndarendir og ég hló í alvörunni þegar ég las það. Þegar ég hugsa um það þá les þessi bók svolítið eins og einhverjir Netflix þættir sem er miðaður að 12 ára stelpum.
Siege and Storm - Leigh Bardugo
Ég kláraði semsagt næstu bók en hélt svo ekki áfram svo ég á ennþá eftir að lesa King of Scars…
I Who Have Never Known Men - Jacqueline Harpman
Freeeaky bók, ég elskaði hana. Gat ekki hætt að hugsa um hana í langan tíma og þetta er ein besta bók sem ég las á árinu. Mæli með fyrir alla.
The Stranger - Albert Camus
Þessi bók tók mig mjög langan tíma að lesa þrátt fyrir að hún sé mjög stutt. Ég var bara ekki gerð til þess að lesa gamlar bækur.
Yellowface - R.F. Kuang
Þessi tók mig líka langan tíma að lesa. Það var ekki að hún væri leiðinleg, en mig minnir að ég náði ekki alveg að sökkva mér í hana. Það var samt áhugavert að sjá aðalpersónuna grafa sg í dýpri og dýpri holu. Þegar ég hugsa um að breyta um átt og vinna í bókabransanum þá læt ég mig hugsa um þessa bók og persónurnar í henni til þess að tala mig niður.
Words in Deep Blue - Cath Crowley
Held þetta hafi verið annað eða þriðja skiptið sem ég hef lesið þessa bók og ég elska hana svo mikið. Þarft samt að horfa framhjá smá cringe til þess að njóta hennar. Þetta er ein af þessum ástarbókum sem maður hugsar ekki um sem ástarbók þegar maður minnist hennar.
A Short Stay in Hell - Steven L. Peck
Var búin að skrifa um þessa svolítið svo ég ætla bara að segja að ég gat ekki hætt að hugsa um hana í mjög langan tíma eftirá.
Þú sem ert á jörðu - Nína Ólafsdóttir
Það var langt síðan ég las bók á íslensku og þessi varð ekki fyrir vonbrigðum. Þetta er ný bók um lífsferil konu í heimi eftir hamfarahlýnanir. Aldrei hef ég áður óskað eftir því að aðalpersónan myndi bara deyja, ekki vegna þess að mér líkaði ekki bókin heldur vegna þess að ég fann svo mikið til með persónunni. Það var í alvörunni sársaukafullt að lesa þessa bók en á góðan hátt.
The Love Hypothesis - Ali Hazelwood
BACK TO THE ORIGINS BABY. Ég var að hugsa um af hverju ég er á þeim stað í lífinu sem ég er, og af hverju ég er yfirhöfuð að læra líffræði en ekki eitthvað annað. Það er í raun mjög furðulegt að ég sé að læra líffræði ef ég horfi á námsferilinn minn. Ég uppgötvaði að það að ég las þessa bók fyrir 4 árum sé mjög líklega ástæðan og ég vildi að ég gæti sagt að hún væri einhver önnur. Svo ég las hana aftur. Sá ekki eftir því.
Love on the Brain - Ali Hazelwood
Þetta er næstum því sama bók og The Love Hypothesis. Hún breytti nokkrum, nokkrum, smáatriðum, og lét gott heita. Mig langar að lesa hana aftur bara við það að hugsa um hana.
The Cruel Prince - Holly Black
Mig langaði að lesa fantasíu og í staðinn fyrir að finna eitthvað nýtt ákvað ég bara að lesa þessa seríu aftur sem ég las í grunnskóla. HÚN ER SVO GÓÐ. Þetta er besta tilraun til sanns ,,enemies-to-lovers” sem ég hef lesið. P.s. ég samdi lag um Jude og Cardan, það heitir Say it Again og ég fattaði á meðan ég var að skrifa það að það sé í rauninni fan-fiction ef maður hugsar um það…
The Wicked King - Holly Black
Ég get ekki sagt þér eitt atvik sem gerðist hérna. Ég hef núna lesið þessa bók tvisvar og ég man ekkert. Allar bækurnar hennar Holly Black eru svona 250 bls af fólki að eiga mjög stuttar samræður og af aðalpersónunni að hugsa um eitthvað og svo gerast 6 hlutir á sama tíma á síðustu 50 blaðsíðunum. Það gæti verið að ég man ekki hvað gerðist í lok þessarar bókar en ég man að ég skemmti mér.
Book Lovers - Emily Henry
Ég var í miðju jólafríi og mig langaði bara til þess að lesa góða ástarbók og varð fyrir svo miklum vonbrigðum þegar ég las þessa. Þetta var fyrsta bókin sem ég hef lesið eftir Emily Henry og það var ekki eins og ég var að búast við bestu ástarsögu lífs míns en fyrst hún er svo vinsæl bjóst ég við einhverju. Allar persónurnar voru svo ótrúverðugar og aðalpersónurnar áttu ekkert chemistry. Bygging bókarinnar sjálfrar hljómar samt mjög vel og ég held að hún hefði getað verið mjög góð, en einhver hefði átt að lesa yfir hana og segja Emily Henry að ef hún ætlar að skrifa ástarbók verður að vera alvöru rómantík í henni. Og ég ætla að segja það: Það er ekki eins og ég sé að lesa mikið af því svo ég er ekki beint með miklar væntingar, en smuttið var hreint út BORING.
The Queen of Nothing - Holly Black
Kláraði árið með því að klára The Folk of the Air seríuna. Ég mun aldrei hætta að hlæja að því að í byrjun bókarinnar er Cardan allur: ,,Uhmm, ég var bara að djóka þegar ég sendi þig í útlegð, Jude, hahah…” og breytist svo í risastóran snák í lokin, Jude drepur hann og svo vaknar hann aftur til lífsins nema allsber og allir eru bara: “Jeii :D”
Ég setti allar bækur sem ég hef lesið síðan 2020 á The Story Graph um daginn svo ég gæti haldið betur utan um þær. Ég er mjög spennt yfir því og er búin að vera nota það fyrir fyrstu lesnu bækur 2026. Ég er núna að lesa Never Let Me Go eftir Kazuo Ishiguro. Hún gengur mjög hægt fyrir sig en er mind-blowingly góð. Ég hef aldrei séð myndina heldur svo kannski ég horfi á hana þegar ég er búin með bókina.
Á þessu ári langar mig auðvitað að lesa fleiri bækur, en líka að lesa oftar. Ég á það til að lesa ekkert í 2 mánuði og lesa svo 3 bækur á einni viku þegar ég kemst í frí eða bara langar það. Það er allt í lagi, stundum langar mig bara ekkert að lesa eða finn ekkert sem hljómar vel, en ég ætla að reyna að lesa þá oftar í styttri tíma.


Comments