top of page

Fyrsta snjókoman

  • kolbrungardarsdott
  • Oct 28
  • 3 min read

Fyrsti alvöru snjór vetrarins fellur niður úti og hefur verið að gera það í allt kvöld. Það er eitthvað við að sjá snjókornin lýstast upp undir ljósastaurshausnum fyrir utan gluggann og að liggja uppi í rúmi í rökkrinu með kveikt á ljósaseríunum í herberginu mínu. Það er svo einstök tilfinning, en samt hef ég fundið hana svo oft, ár eftir ár. Ég get ekki ímyndað mér að vera einhver manneskja sem hefur aldrei fundið hana. Ég uppgötvaði í bílnum um daginn þegar fyrstu snjókorn vetrarins byrjuðu að falla, örþunn niður á rúðuna, og tilfinningin helltist yfir mig, að kannski er veitir hún mér þessa vellíðan einmitt vegna þess að ég hef fundið hana svo oft. Hvern vetur verð ég eins spennt yfir fyrstu snjókomunni, og í hvert skipti stari ég út um gluggann og drekk í mig þögnina sem fylgir einmitt svona friðsælli snjókomu. Mér finnst hún jafn falleg á hverju ári og hún lætur mér alltaf líða eins. Þessi snjókoma minnir mig á að vera í unglingadeild þegar ég fór í langa göngutúra upp í Skarðshlíð áður en hún varð eiginlega til og að ganga upp á bak við hlíðina, leggjast svo niður í snjóinn og horfa upp á næturhimininn þangað til kuldinn tróð sér í í gegnum úlpuna frá snæviþaktri jörðinni. Hún minnir mig á að labba að strætóskýli eftir sinfóníuæfingu með tónlist í eyrunum og flautuna á bakinu. Ég er líka komin aftur í fyrsta árið í menntaskóla, sitjandi í strætó, hlustandi á Sling með Clairo. Ég hugsaði um í bílnum að þessi árlega snjókoma láti mér kannski líða svona vel því hún minnir mig á fyrri friðsæla tíma. Snjókoman er falleg, svo hún stendur eftir í minninu, og ég para hana ósjálfrátt við þá tímapunkta sem hún féll á. Ég held að skipti ekki máli hvort ég hafi verið sérstaklega hamingjusöm á þeim tímapunktum sem koma upp í huganum þegar snjórinn fellur, heldur skiptir það bara máli að þeir hafi nú þegar liðið, og ég finn enga óvissu þegar ég rifja þá upp. Kannski finn ég til friðar þegar fyrsti snjór vetrarins fellur því ég minnist tíma sem ég get heimsótt í huganum og vitað nákvæmlega hvað á eftir að gerast – ég finn til öryggis. Það hljómar rétt. 


Talandi um snjókomuna og Sling, ég er búin að vera að hlusta á plötuna í allan dag. Ég held hún sé hin fullkomna háveturs-plata, þótt hún hafi verið gefin út um sumar. Þegar ég hlusta á hana er eins og hún vefji sér utan um mig eins og hlýtt teppi og segi mér að allt sé í lagi, nema að teppið er ofið úr minningum. Eins og ég sagði, ég hlustaði mjög mikið á hana í menntaskóla, sérstaklega í strætó á leiðinni í skólann í myrkrinu. Hún er svo hlý, ég held það komi frá djúpa gítarnum, og ískurhljóðunum í strengjunum, og hvernig það eru margar mismunandi samsetningar af strengjahljóðfærum í lögunum. Clairo hljómar líka eins og hún sé að hvísla lögin að þér, eða eins og hún sé rétt svo að syngja til sjálfrar síns á milli þess að humma á meðan hún er að gera eitthvað annað. Það er líka nokkuð mikið af þverflautu í bakgrunninum á plötunni, og mig grunar að það sé einmitt það sem minnir mig mikið á þennan tíma. Annars get ég ekki útskýrt hvernig hún bara hljómar eins og þessi fyrstu snjókorn að falla rólega niður að jörðinni. 

Recent Posts

See All
Ég er allavega ekki með námskvíða.

Ókei, miðannarprófin eru búin og ég er komin meira en helminginn inn í fyrstu önnina af háskólanámi. Það er meira að segja u.þ.b. mánuður í fyrsta lokapróf, sem er algjört brjálæði. Ég gerði mér bara

 
 
 
Risaeðlur og ég

Ég kláraði bókina Words in Deep Blue í gær í annað skiptið. Ég fékk hana í afmælisgjöf fyrir tveimur árum frá vinkonu minni sem fann hana...

 
 
 
Að vera hestur í náttfötum

Ég fór á vísó í dag eftir verklegan efnafræðitíma þar sem ég botnaði ekki mikið í hvað ég var í rauninni að gera en að bæta efnum ofan í...

 
 
 

Comments


Share your thoughts...

Message Received!

© 2023 by Thoughts Express. All rights reserved.

bottom of page