Að vera hestur í náttfötum
- kolbrungardarsdott
- Sep 27
- 3 min read
Ég fór á vísó í dag eftir verklegan efnafræðitíma þar sem ég botnaði ekki mikið í hvað ég var í rauninni að gera en að bæta efnum ofan í tilraunaglas til skiptis. Þegar ég lít til bara er það svolítið írónískt að eftir þennan tíma fór ég svo á rannsóknarstofu og átti að vera að hugsa um hvort ég sæi sjálfa mig vinna þar einhverntíma í framtíðinni. Kynnarnir virtust vera að tala eins og þau vildu fá okkur bara um leið í einhver verkefni. Ef það er eitthvað eins og það sem ég átti að vera að gera og skilja í verklega tímanum áðan þá myndi það kannski ganga illa fyrir sig.
Eins og ég skildi lítið í tímanum, þá var sumt sem þau á alvöru rannsóknarstofunni eru að rannsaka og vinna í bara mjög áhugavert. Ég fór að hugsa mjög mikið um kjötframleiðslu og þessi tvö ár í menntaskóla þar sem ég var grænmetisæta. Rannsóknarstofan skimar nefnilega fyrir alls konar sjúkdómum í búfénaði. Ef ákveðnir sjúkdómar finnast þarf að lóga öllum dýrunum. Ég hafði aldrei hugsað út í þann hluta landbúnaðar áður eiginlega. Ætli það séu ekki margir hlutir sem ég hef ekki hugsað út í áður, en ég reyni að einblína á það að ég sé að hugsa út í þá núna. Sumt af því sem talað var um hafði ég engan áhuga á, eins og sjúkdómar í fiskum. Eins og ég hugsa út í kjötframleiðslu þá gæti mér ekki verið sama um fiska. Fyrir mér gæti ég aldrei séð fisk aftur á ævi minni og ég held ég myndi ekki einu sinni taka eftir því. En aftur að kjötinu. Nema að allur heimurinn tekur skyndilega upp vegan mataræði á einni nóttu mun hún halda ótrauð áfram. Já, það er minni eftirspurn eftir rauðu kjöti síðustu árin (allavega á Íslandi) en hefur verið en mig grunar að það hafi bara ekkert með umhverfið eða dýravelferð í huga, heldur efnahaginn. Þetta gæti reyndar bara verið bull en ég sá eitthvað um þetta í fréttum um daginn svo vonandi ekki. Ég hugsaði á kynningunni þegar þau töluðu um mismunandi tegundir smitsjúkdóma í búfénaði og hvernig bregðast þarf við þeim ef þeir finnast, að ef að ég gæti ekki breytt framleiðsluháttum, meðferð dýra, eða matarvenjum mannfólks þá gæti ég kannski fundið leið til þess að leyfa dýrum að lifa í einhvern tíma áður en þeim er slátrað, jafnvel bætt lífsgæði þeirra. Ímyndaðu þér að vera hestur og klæja alltaf alls staðar en bara geta ekki klórað þér almennilega (af því að þú ert hestur). Og svo kemur eitthvað fólk og setur þig í náttföt á kvöldin. Þetta hefur reyndar ekkert með kjötframleiðslu að gera.
Yfir í annað. Stundum verð ég pirruð á því hversu langt ég bý í burtu frá skólanum, hversu lengi ég þarf að sitja í umferð ef ég legg ekki af stað klukkutíma fyrir byrjun fyrsta tíma, eða það að bæði systkini mín fari í sturtu beint á eftir hvort öðru einmitt þegar ég ætlaði að gera það. Ég get svo aldeilis látið mig dreyma um það að búa ein og geta bara gert nákvæmlega það sem ég vil, hvenær sem ég vil. Svo hjálpar vinnan mér alls ekki, ég stari bara á öll þessi fallegu og dýru skellaga kokteilglös, ímynda mér jógúrtina sem ég myndi borða úr grænu keramik skálunum með glansandi bresku desertskeiðunum þegar ég stend og pússi þær til þess að láta tímann líða. Ekki það að ég sé að fara að fylla eldhúsið af iittala um leið og ég flyt út, ég geri mér alveg grein fyrir stöðu minni þótt ég eigi það til að gleyma mér stundum. Eftir að hafa kynnst fólki síðasta mánuðinn get ég allavega sætt mig við það að ég get keypt mér hádegismat og orkudrykk óháð því hversu margir dagar eru eftir af mánuðinum. Kannski ef ég flytti út núna væri það ekki svo.
Talandi um vinnuna, ég var búin að láta mér hlakka til helgarinnar, hún er nefnilega sú fyrsta í síðan ég kom heim úr útlöndum í ágúst þar sem ég er ekki að vinna laugardag eða sunnudag. Ég var næstum því búin að taka vakt á sunnudaginn en ég er svo glöð að ég sagði nei við henni, ég á eftir að gera svo margt, en aðallega efnafræði. Ég held ég muni aldrei vera laus við hana.


Comments